Forstjóri bandaríska húsnæðislánafyrirtækisins Better Mortgage, Vishal Garg, mun fara í tímabundið leyfi eftir að hann sagði upp 900 manns á Zoom fundi í síðustu viku. Þetta kom fram í pósti sem stjórn fyrirtækisins sendi til starfsmanna. The Guardian segir frá.

Mikið var rætt um Better í fjölmiðlum í síðustu viku eftir að upptöku af Zoom fundinum var lekið á netið. Ekki hjálpaði þegar Garg sakaði svo hundruð starfsmanna um að stela frá samstarfsfólki og viðskiptavinum með því að sinna vinnunni sinni ekki nægilega vel.

Sjá einnig: Yfir 900 sagt upp fyrir Novator sam­runa

„Þið vitað að í það minnsta 250 af fólkinu sem var sagt upp vann að meðaltali aðeins í tvo klukkutíma á dag þó að það hafi fengið yfir 8 klukkutíma í launakerfinu,“ skrifaði Garg á nafnlausum aðgangi á atvinnutengdum samfélagsmiðli. „Þau voru að stela frá ykkur og stálu frá viðskiptavinum sem borga reikningana sem aftur borgar reikningana okkar.“

Garg sendi frá sér yfirlýsingu á þriðjudaginn síðasta þar sem hann baðst afsökunar á því hvernig hann stóð að hópuppsögninni. „Mér mistókst að sýna viðeigandi virðingu og þakklæti til þessara einstaklinga og framlag þeirra til Better.“

Better mun á næstunni fara á markað með sérhæfða yfirtökufélaginu Aurora Acquisition, sem er leitt af Novator, fjárfestingafélagi Björgólfs Thors sem er jafnframt stjórnarformaður Aurora. Tilkynnt var nýlega að Aurora muni veita Better 750 milljóna dala, eða um 98 milljarða króna, í fjármögnun til að styrkja efnahagsreikninginn og renna stoðum undir frekari vöxt. Better er verðmetið á 6,9 milljarða Bandaríkjadala, eða um 900 milljarða króna.