Verkefnið Stígur sem Vinnumálastofnun ýtti af stað í samvinnu við sveitarfélögin til að þjónusta atvinnuleitendur, sem eru án bótaréttar í atvinnuleysistryggingakerfinu og njóta fjárhagsaðstoðar frá félagsþjónustu sveitarfélaga, hefur gengið mjög vel. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Vinnumálastofnun að, nú þegar rúmlega hálft ár er liðið frá því verkefnið fór af stað, staðan sú að tæplega 40% þeirra sem hefur verið vísað til Vinnumálastofnunar frá félagsþjónustum eru komnir með vinnu. 82% hafa fengið vinnu má almennum markaði og 18% hjá viðkomandi sveitarfélagi.

Í nóvember síðastliðnum ýtti Vinnumálastofnun verkefninu af stað. Markmiðið með verkefninu var að styrkja viðkomandi einstaklinga í leit sinni að atvinnu og fækka þannig skjólstæðingum sveitarfélaganna sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.

Um var að ræða þjónustu við fólk sem ýmist hefur klárað bótarétt sinn til atvinnuleysisbóta undanfarin ár eða hafði af einhverjum ástæðum ekki náð að skapa sér þann rétt. Félagsþjónustur sveitarfélaga hafa vísað þeim sem í hlut eiga í starfsráðgjöf, atvinnuleit og vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun samkvæmt sérstöku verklagi.

Sem dæmi um árangur má nefna að félagsþjónustan í Hafnarfirði hefur vísað 106 einstaklingum til Vinnumálastofnunar frá áramótum og af þeim eru 57 komnir í starf eða 54% og af þeim hafa 74% fengið vinnu á almennum markaði og 26% hjá sveitarfélaginu.

Verkefnið mun halda áfram af fullum krafti á komandi vetri og bætt atvinnuástand mun leiða til þess að fleiri einstaklingar fá starf, verða virkir samfélagsþegnar og þurfa ekki á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna að halda vegna atvinnuleysis.