Um miðjan febrúar var ein öld liðin frá því að Hæstiréttur Íslands fagnaði aldarafmæli sínu. Ómögulegt er að gera sögu réttarins tæmandi skil í stuttu máli – afmælinu verður meðal annars fagnað með útgáfu á riti um fyrstu hundrað árin – en Frjáls verslun ákvað engu að síður að hlaupa á hundavaði yfir söguna hingað til. Rétt er að geta þess að á haustmánuðum mun veglegt rit um sögu Hæstaréttar, sem sagnfræðingurinn Arnþór Gunnarsson ritaði, koma út í tilefni tímamótanna.

Samhliða stofnun allsherjarþings hér á landi árið 930 var komið á fót frumstæðum stofnunum sem fengu það hlutverk að skera úr ágreiningi landsmanna. Eftir Sturlungaöld gengust Íslendingar undir vald Noregskonungar og með lögfestingu Jónsbókar árið 1281 færðist æðsta dómsvald landsins til konungs, fyrst til Noregs og seinna meir til Danmerkur. Æðsta dómsvaldið var ytra allt til ársins 1920.

Áður en dansk-íslensku sambandslögin voru samþykkt höfðu sex sinnum verið flutt á Alþingi frumvörp um að dómsvaldið færðist heim á Frón. Í tvígang hlutu þau samþykki þingsins en var synjað um undirritun af konungi. Þegar Ísland hlaut fullveldi, með samþykkt sambandslaganna árið 1918, var kveðið á um að hæstiréttur Danmerkur færi með æðsta dómsvald Íslands þar til Íslendingar samþykktu að koma eigin Hæstarétti á fót. Samkvæmt lögunum átti að skipta íslenskan dómara í réttinn í Kaupmannahöfn næst þegar staða þar losnaði. Á þeim tíma töldu Danir það ólíklegt að Íslendingar myndu nýta sér heimildina í bráð. Af því varð aldrei en umræddur stóll, sem ætlaður var íslenska dómaranum sem aldrei var skipaður, er enn til og varðveittur í húsnæði hins danska réttar.

„Maður freistast til að hlusta ekki á ykkur“

Íslendingar fóru hins vegar af stað með málið nokkru hraðar en Danir höfðu ráðgert. Frumvarp um málið var lagt fram á þingi sumarið 1919 og samþykkt sama ár. Fyrsta dómþingið var sem fyrr segir haldið 16. febrúar 1920 en upphaflega stóð til að dómstóllinn tæki fyrr til starfa. Það dróst hins vegar vegna seinagangs iðnaðarmanna við uppsetningu á dómsal réttarins. Með lögunum var munnlegum málflutningi komið á en fram til þessa höfðu mál verið flutt skriflega í Landsyfirrétti. Fyrsti munnlegi málflutningurinn fór fram 26. maí 1920 en fram að því hafði rétturinn dæmt í skriflega fluttum málum sem hann hafði fengið í arf frá Landsyfirrétti.

Sú breyting fór misvel ofan í menn. „Blessaðir farið nú ekki að halda langar ræður. Þið megið vita, að við byggjum dóm okkar á dómsgjörðum, sem eru skrifaðar. Þar er eitthvað að halda sér að. Hvernig eigum við að muna það sem þið kunnið að segja? Maður freistast til að hlusta ekki á ykkur,“ sagði Kristján Björnsson, fyrsti forseti réttarins, eitt sinn við málaflutningsmanninn Svein Björnsson, síðar fyrsta forseta lýðveldisins.

Óhætt er að segja að tímabilið meðan rétturinn sleit barnsskónum hafi verið nokkuð róstursamt. Í upphafi voru það sitjandi dómarar sem tóku ákvörðun um það hverjir myndu taka sæti í réttinum en til þess þurftu menn að standast sérstakt dómarapróf. Það fyrirkomulag var þyrnir í augum margra og varð tilefni mikillar þrætu í meðal stjórnmálamanna. Á þessum tíma var stéttabaráttan að ryðja sér rúms og flæktist rétturinn ítrekað inn í þær deilur þegar mál þeim tengt komu til kasta hans. Lenti rétturinn ítrekað í hringiðu þeirra deilna og reglulega sakaður um að ganga erinda hagsmunaafla í samfélaginu. Skrif í dagblöðum þess tíma bera þess merki að Framsóknar- og Alþýðuflokkur hafi haft ýmislegt úr á réttinn að setja en Sjálfstæðisflokkurinn hafi aftur á móti viljað standa vörð um réttinn.

Til að byrja með var sá háttur hafður á að til að hljóta skipun í réttinn þurftu dómaraefni að þreyta svokallað dómarapróf. Það fólst í því að greiða atkvæði í fjórum málum en af því leiddi að enginn gat hlotið skipun í réttinn nema bæði dómsmálaráðherra og sitjandi dómarar væru því fylgjandi. Höfðu ýmsir horn í síðu þessa fyrirkomulags en í þeirra hópi, í raun harðasti formælandi þess fyrirkomulags, á var Jónas Jónsson frá Hriflu. Lagði hann ítrekað fram frumvörp á Alþingi um stofnun Fimmtardóms,  sem fól í sér niðurlagningu Hæstaréttar og gerði dóminn háðari framkvæmdarvaldinu, og virtist eitt þeirra ætla ná fram að ganga. Við meðferð málsins var lögð fram breytingatillaga þess efnis að dómaraefni skyldi hljóta samþykki á ríkisstjórnarfundi og varð það til þess að Jónas, þá dómsmálaráðherra, dró sig í hlé. Ekkert varð af breytingatillögum hans. Breytingar voru þó gerðar árið 1935 og fólust þær í því að dómaraprófið var afnumið, þótt aðeins einu sinni hefði á það reynt, og þess í stað skyldu hæstaréttardómarar veita umsögn um mögulega dómendur. Var það fyrirkomulag við lýði allt fram á þessa öld.

25.710 dómar uppkveðnir

Á þeim fimmtíu árum sem Hæstiréttur hefur starfað hefur 51 einstaklingur hlotið skipun í dóminn, ellefu einstaklingar á fyrstu fjörutíu árum hans en fjörutíu á síðari sextíu árunum. Þaulsetnasti dómari sögunnar er Gizur Bergsteinsson en hann var dómari við réttinn í rúmlega 36 ár, frá 1935-1972. Gizur er jafnframt sá dómari, ásamt Árna Tryggvasyni, sem var yngstur til að vera skipaður eða 33 ára.

Flestir dómarar sem við réttinn hafa starfað hafa verið farsælir í starfi en í tvígang hefur það gerst að dómari hefur látið af embætti vegna hneykslismáls. Það gerðist fyrst árið 1964. Í síðara skiptið var Magnús Thoroddsen dæmdur til embættismissis eftir að í ljós kom að hann hafði keypt ríflega 2 þúsund flöskur af víni á kostnaðarverði sem handhafi forsetavalds. Var það talið af meirihluta dómenda ávirðing sem leiða ætti til embættismissis. Stefnt er að því að dómstóllinn verði fullmannaður á ný á vormánuðum.

Fimm konur hlotið skipun

Hæstiréttur hefur löngum verið mikið karlavígi en fyrsta konan til að vera skipuð í réttinn var Guðrún Erlendsdóttir. Það gerðist árið 1986. Ingibjörg K. Benediktsdóttir bættist í hópinn vorið 2001 og Hjördís Björk Hákonardóttir árið 2006. Þær hafa allar látið af embætti. Af þeim sjö dómurum sem skipa réttinn nú eru tvær konur, annars vegar Greta Baldursdóttir, skipuð árið 2011, og hins vegar Ingveldur Einarsdóttir sem jafnframt er nýjasti dómari hans. Hún tók við embætti fyrsta dag þessa árs. Sem stendur eru sex dómarar starfandi við réttinn en Helgi I. Jónsson lét af embætti undir lok síðasta mánaðar.

Nánar er fjallað um málið í nýútkomnu tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að nálgast ritið í verslunum. Hægt er að skrá sig í áskrift gegnum netfangið [email protected] .