Stím ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, en úrskurður þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 24. maí síðastliðinn. Í lögbirtingablaðinu í dag kallar skiptastjóri, Árni Pálsson hrl., eftir kröfum í búið og svo er áætlað að haldinn verði skiptafundur mánudaginn 3. september næstkomandi. Komi ekkert fram um eignir í búinu verður skiptum lokið á þeim fundi.

Stím ehf var stofnað 16. nóvember 2007. og keypti hluti í FL Group og Glitni fyrir samtals 24,8 milljarða króna. Félagið keypti 3,8% hlut í FL Group fyrir 8,4 milljarða króna og 4,3% hlut í Glitni fyrir 16,4 milljarða króna. Glitnir lánaði félaginu samtals 19,6 milljarða króna vegna kaupanna, eða tæp 80%. Glitnir var með tryggingu í öllum bréfunum. Lánið var kúlulán til tólf mánaða með 20,15% óverðtryggðum vöxtum og 1% lántökugjaldi. Fram hefur komið að þessi viðskipti eru til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara, sem m.a. hefur framkvæmt húsleitir vegna rannsóknarinnar.

Hlufhafalisti Stím ehf:

  • 32,5% Félag stofnað af gamla Glitni sem ætlað var til endursölu
  • 15% Gunnar Torfason
  • 10% SPV fjárfesting hf
  • 10% BLÓ ehf - félag að fullu í eigu Óskars Eyjólfssonar
  • 10% Ofjarl ehf – félag að fullu í eigu Jakobs Valgeirs Flosasonar og Ástmars Ingvarssonar
  • 8,75% Viðskiptavinir Saga Capital fjárfestingabanka
  • 6,25% Saga Capital fjárfestingabanki
  • 2,5% Jakob Valgeir Flosason
  • 2,5% Ástmar Ingvarsson
  • 2,5% Flosi Jakob Valgeirsson.