Nú hefur niðurstöðu héraðsdóms í Stím-málinu, þar sem Lárus Welding, Jóhannes Baldursson og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson voru ákærðir fyrir umboðssvik, verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Komist hafði verið að niðurstöðu í málinu innan héraðsdóms, en þá hlutu allir ákærðu fangelsisdóm. Lárus fékk fimm ára dóm, Jóhannes tveggja ára dóm, og Þorvaldur fékk 18 mánaða dóm.

Ákæra sérstaks saksóknara víkur að því að Glitnir banki, hvers Lárus var áður bankastjóri, hafi veitt fyrirtækinu FS37 - sem síðar varð Stím - 20 milljarða lán með veði í hlutafé fyrirtækisins. Þá var féð notað til þess að kaupa hlutabréf í FL Group og Glitni.

Þorvaldur Lúðvík var þá bankastjóri Saga Capital, en fjárfestingarbankinn keypti framvirkt skuldabréf af Stím. Því næst gekk fyrrnefnt skuldabréf í viðskiptum til fjárfestingarsjóðs í eigu Glitnis.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í desember sagðist Þorvaldur Lúðvík ætla að áfrýja niðurstöðunni um leið og dómur var kveðinn upp yfir ákærðu. Hann sagðist saklaus í Facebook-færslu, auk þess sem hann sagði að niðurstaða málsins sé ekki í samræmi við málavexti og fyrirliggjandi gögn.