Í nýju áliti Umboðsmanns Alþingis er komist að þeirri niðurstöðu að álagning stimpilgjalds á þinglýst endurrit um framkvæmd fjárnáms eigi sér ekki fullnægjandi lagastoð. Umboðsmaður hefur beint þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það taki mál banka sem sendi kvörtunina sem málið spratt upp af til Umboðsmanns upp að nýju óski bankinn eftir því. Einnig beindi Umboðsmaður þeim tilmælum til fjármálaráðherra að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til að þeirri framkvæmd sem nú tíðkast á innheimtu stimpilgjalda verði breytt.

Ráðuneytið innheimti stimpilgjöld sem falla til vegna fjárnáms á grundvelli laga um stimpilgjald. Í lögunum er heimilað að innheimta stimpilgjald fyrir stimplun skuldabréfa og tryggingabréfa og beindist athugun Umboðsmanns því að því hvort endurrit úr fjárnámsbók gæti talist til tryggingabréfa í skilningi laganna.

Niðurstaðan var að svo væri ekki og því var gjaldtakan talin ólögmæt. Í fréttum Ríkisútvarpsins um málið kom fram að fjöldi einstaklinga og fyrirtækja eiga á grundvelli álitsins rétt á hundruða milljóna endurgreiðslum frá ríkissjóði, en stimpilgjaldsupphæðin er 1,5% af þeirri skuldafjárhæð sem fjárnám er gert vegna.