Sjanghæ hlutabréfavísitalan í Kína féll um 6,5% í gær í kjölfar þess að stjórnvöld tóku þá ákvörðun að þrefalda stimpilgjald sem lagt er á öll hlutabréfaviðskipti, úr 0,1% upp í 0,3%. Þetta er mesta lækkun á hlutabréfum í Kína á einum degi í þrjá mánuði, en í lok febrúar hrundi hlutabréfamarkaðurinn um meira en 9%. Sérfræðingar segja að þetta sé ein skýrasta vísbendingin sem komið hafi frá kínverskum ráðamönnum í langan tíma um að stjórnvöld stefni að því að kæla hlutabréfamarkaðinn. Sjanghæ hlutabréfavísitalan hefur hækkað um meira en 60% það sem af er þessu ári og um tæplega 300% á síðastliðnum tveimur árum.

Aðgerðirnar höfðu umsvifalaust áhrif víðs vegar um Asíu. Allir hlutabréfamarkaðir í álfunni - nema á Tælandi - lækkuðu í kjölfarið; mestu féllu markaðir í Japan, Hong Kong og Singapúr. Áhrifanna gætti einnig á evrópskum verðbréfamörkuðum, enda þótt lækkanir þar hafi verið minni heldur en í Asíu. Síðast þegar Kínverjar tóku þá ákvörðun að hækka stimpilgjald á hlutabréfaviðskipti árið 1997, leiddi það til þess að gengi svokallaðra A-hlutabréfa 300 stærstu félaganna sem skráð eru í júönum í kauphöllunum í Sjanghæ og Shenzhen, lækkuðu um 30% á næstu fjórum mánuðum.

Í rökstuðningi kínverska fjármálaráðuneytisins fyrir ákvörðuninni kom fram að hún væri gerð til þess að "styrkja heilbrigða þróun á verðbréfamörkuðum" í Kína. Einstaklingar og minni fjárfestar hafa á undanförnum vikum horft hýru auga til þess skjóta ávinnings sem er í boði á hlutabréfamarkaðinum, en nýverið vöruðu kínversk stjórnvöld almenning um þá hættu sem slíkum viðskiptum fylgir. Þau varnarorð hafa hins vegar litlu skilað. Í frétt Financial Times er bent á að í síðustu viku hafi fjöldi vörslureikninga farið yfir hundrað milljónir. Þessi gríðarmikli fjöldi slíkra reikninga gefur þó ekki rétta mynd af þeim raunverulega fjölda sem stundar hlutabréfaviðskipti. Sérfræðingar telja að virkir fjárfestar á hlutabréfamarkaði séu nær því að vera í kringum 20 milljónir.

Staða kínverskra stjórnvalda er ekki auðveld: Annars vegar vilja þau draga úr þeirri miklu spákaupmennsku sem einkennir viðskipti með hlutabréf og hins vegar vilja ráðamenn forðast það að til mikilla hlutabréfalækkana komi, en slíkt myndi hafa afrifarík áhrif fyrir fjölmarga Kínverja sem hafa lagt undir allt sitt sparifé í slíkar fjárfestingar. Steve Sun, sérfræðingur hjá HSBC í Hong Kong, segir í samtali við Financial Times að stefna ríkisstjórnarinnar sé að reyna í smáum og varfærum skrefum að kæla hlutabréfamarkaðinn.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.