Skjöl sem gefin eru út til 1. janúar 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga verða undanþegin greiðslu stimpilgjalds. Þetta er lagt til í stjórnarfrumvarpi sem dreift hefur verið á Alþingi.

Frumvarpið er lagt fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir á fjármálamörkuðum og tilmæla yfirvalda til banka og sparisjóða þess efnis að aðstoða fólk vegna greiðsluerfiðleika.

„Tillaga frumvarpsins er ekki talin leiða til beinna útgjalda fyrir ríkissjóð, en ljóst er að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi munu minnka eitthvað verði þetta frumvarp að lögum," segir m.a. í skýringum frumvarpsins.

Frumvarpið í heild sinni má finna hér .