Bankasýsla ríkisins hefur ráðið STJ Advisors Group Limited  sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa vegna frumútboðs á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. STJ hefur þegar hafið störf. Alls gáfu sjö aðilar kost á sér með áhugayfirlýsingum til að verða sjálfstæður fjármálaráðgjafi.

Í fréttatilkynningu Bankasýslunnar segir að STJ sé einn af leiðandi sjálfstæðum ráðgjöfum á sviði útboða á hlutabréfum í Evrópu. Ráðgjafafyrirtækið aðstoðaði Marel vegna skráningar félagsins í Euronext kauphöllina í Amsterdam árið 2019.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynnti um fyrirhugað útboð á hlutabréfum Íslandsbanka um miðjan desember síðastliðinn.  Ekki liggur fyrir hversu stór hlutur ríkissjóðs verður boðinn út en í skýrslu Bankasýslu kom fram að hann yrði fjórðungur hið minnsta.