ÍMARK, félag íslensks markaðsfólks, stendur fyrir fundi í húsakynnum Arion banka í Borgartúni klukkan 8.30 í fyrramálið, þar sem Bechara Mouzannar flytur erindi. Í tilkynningu frá ÍMARK segir að Mouzannar sé "einn farsælasti skapandi auglýsingamaður í heiminum í dag".

Mouzannar starfaði um árabil hjá  Leo Burnett MENA í Beirút en í fyrra var hann ráðinn til Publicis Communications MEA. Fyrirlestur Mouzannar verður í tveimur hlutum og snýst fyrri hlutinn um sýn hans og erindi í auglýsinga- og markaðsmálum. Í síðari hlutanum kynnir Mouzannar herferðir sem hann hefur unnið að í Líbanon sem er smátt markaðssvæði líkt og hér á landi. Á meðal fyrirtækja sem hann hefur unnið auglýsingar fyrir eru Samsung, Kellogg's, Coca Cola, Emirates, Philip Morris, Renault og BMW.

Mouzannar er með tvær MBA gráður, önnur frá Berlin School of Creative Leadership, sem fellur að hans sögn vel að hugmyndum hans um samhæfðar herferðir og félagslega þátttöku.