*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Fólk 1. apríl 2018 19:01

Stjarnan kom ein til greina

Einar Einarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Galup, hefur hafið störf sem rekstrarstjóri MS.

Ritstjórn
Nýr rekstrarstjóri MS, Einar Einarsson, spilaði í 15 ár með meistaraflokki Stjörnunnar í handbolta og fær nú að upplifa íþróttina í gegnum dæturnar.
Haraldur Guðjónsson

Mjólkursamsalan hefur ráðið Einar Einarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Gallup, til að leiða nýtt rekstrarsvið fyrirtækisins en undir það munu fjármál, tölvudeild og mannauður MS heyra.

„MS er gríðarlega stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, og mun ég einbeita mér að fjármálum og starfsmannamálum fyrirtækisins, en hér eru 450 starfsmenn og mannauðsmál hafa alltaf verið mér hugleikin. Það eru gríðarlega spennandi verkefni framundan í fyrirtækinu, enda standa fyrir dyrum miklar fjárfestingar í húsnæði og tækjabúnaði,“ segir Einar sem segir mikla hagræðingu hafa verið í mjólkuriðnaði síðan nýtt félag var stofnað um reksturinn árið 2007.

„Þegar mér bauðst þetta starf var ég ekki lengi að samþykkja það, en alveg síðan ég stofnaði ungur fyrirtæki þar sem við söfnuðum svokölluðum Nielsen tölum í smásölugeiranum hef ég alltaf haft áhuga á smásölu- og birgjageiranum. Ég hef sjálfur langa reynslu í rekstri en svo hef ég einnig í mínum störfum verið að hjálpa viðskiptavinum í að ná betri árangri í sínum geirum.“

Áður en Einar fór yfir til MS hafði hann starfað í 12 ár sem framkvæmdastjóri Gallup og forvera þess en hann tók ákvörðun um að reyna sig á nýjum vettvangi eftir aldarfjórðung í sams konar störfum.

„Þegar ég kláraði viðskiptafræðina árið 1993 fór ég að vinna hjá einum mínum besta félaga, Skúla Gunnsteinssyni, en hann hafði verið með mér í handbolta. Hafði hann ásamt öðrum þá nýlega stofnað fyrirtæki um markaðsrannsóknir sem síðan þróaðist yfir í að sinna einnig ráðgjöf og ráðningum,“ segir Einar.

„Síðar stofnaði ég mitt eigið félag sem svo rann inn í IMG, og loks árið 2005 varð ég framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Capacent sem árið 2014 var skipt upp í sér félag, Gallup.“

Einar er giftur Hildi Pálsdóttur snyrtifræðingi og saman eiga þau fjórar dætur á aldursbilinu 13 upp í 29 ár. „Yngri dæturnar tvær eru í kafi í handbolta, eins og ég gerði sjálfur. Ég spilaði lengst af með Stjörnunni, og var þar í meistaraflokki í fimmtán ár og svo þjálfari í þrjú ár, og er maður aðeins að upplifa þetta aftur í gegnum stelpurnar,“ segir Einar.

„Ég hef nánast búið óslitið í Garðabæ síðan ég flutti þangað 5 ára gamall svo að þegar stelpurnar byrjuðu í handbolta kom ekkert annað til greina en að þær myndu spila með Stjörnunni.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.