Andrew Lahde, yfirmaður vogunarsjóðsins Lahde Capital Management í Los Angeles, hefur hætt störfum og ritaði af því tilefni óvenjulegt kveðjubréf þar sem hann segir samstarfsmenn sína vera „yfirlaunaða hálfvita“ og þakkar „heimskum“ kaupmönnum fyrir að gera sig ríkan.

Lahde Capital hafði úr 80 milljónum Bandaríkjadala að moða. Andrew Lahde er 37 ára og mun að eigin sögn alls ekki sakna fjármálaheimsins.

„Hálfvitar sem eiga foreldra sem borguðu fyrir þá nám í Yale og Harvard MBA eiga þá menntun sem þeir fá (eða eiga að hafa fengið) oft ekki skilið, en eru yfirmenn fyrirtækja á borð við AIG, Bear Stearns og Lehman Brothers, auk þess að vera hátt settir innan stjórnsýslunnar,“ skrifaði Andrew. „Það gerði mér bara auðveldara að finna fólk sem var nógu heimskt til að taka stöðu á móti mér í viðskiptum. Guð blessi Ameríku.“

Einn af sjóðum Lahde skilaði 866% ávöxtun í fyrra, aðallega með því að taka stöðu gegn húsnæðislánavafningum.

Í kveðjubréfi sínu segist Andrew ánægður með það sem hann ber úr býtum og segist ekki öfunda þá sem þéna meira.

„Ég læt aðra um að þéna tíu til ellefu stafa tölu á mánuði. Á meðan lifa þeir ömurlegu lífi,“ sagði Andrew í bréfi sínu.

Guardian greindi frá þessu.

Bréf Andrew Lahde í heild sinni má nálgast hér.