Stjórn ABN Amro hefur tekið þá ákvörðun að mæla hvorki með yfirtökutilboði Barclays né RBS-hópsins sem hafa verið gerð í hollenska bankann. Þangað til nú hefur ABN stutt vinveitt 67,5 milljarða evra tilboð breska bankans Barclays þrátt fyrir að það hafi verið heldur lægra heldur en tilboð RBS-hópsins, sem samanstendur af Royal Bank of Scotland, Fortis og Santander, sem hljóðaði upp á 71,1 milljarð evra og gerir jafnframt ráð fyrir því að hlutfall peninga verði 93%. Tilboð Barclays er hins vegar að 37% hluta í peningum en afgangurinn verður greiddur með nýjum bréfum í bankanum, en gengi þeirra hefur fallið mikið á undanförnum dögum.

ABN Amro greindi einnig frá því í gær að hagnaður bankans á öðrum ársfjórðungi hefði dregist saman um 7,1% frá því á sama tímabili og í fyrra. Samtals nam hagnaðurinn 1,13 milljörðum evra, samanborið við hagnað upp á 1,21 milljarð evra fyrir ári. Engu að síður var afkoman umfram væntingar greiningaraðila sem höfðu að meðaltali spá hagnaði upp á einn milljarð evra.

Talsmaður ABN sagði að sökum þess að tilboð Barclays væri talsvert lægra heldur en RBS-hópsins væri stjórn bankans komin í þá stöðu að geta ekki lengur mælt með því við hluthafa að greiða atkvæði með tilboði Barclays. Enda þótt Barclays hafi vonast eftir því að hljóta áfram stuðning stjórnar hollenska bankans við yfirtökuboð sitt, sagðist John Varley, framkvæmdastjóri Barclays, skilja þá viðkvæmu stöðu sem stjórn ABN stæði frammi fyrir.

Það er talið að um 40% hlutafjárs ABN Amro sé í eigu vogunarsjóða, að því er kemur fram í frétt Financial Times. Ólíkt hefðbundnum fjárfestum gefa slíkir fjárfestingarsjóðir oftar en ekki minna fyrir meðmæli stjórnarinnar þegar kemur að því að ákveða hvort yfirtökutilboðið skuli fallast á.