Avion Group fyrir hönd dótturfélags síns Eimskips Atlas Canada, Inc. hefur náð samkomulagi við Atlas Cold Storage um yfirtökutilboð í allt hlutafé félagsins, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Samkomulagið felur í sér að Avion Group hækkar tilboð sitt úr sjö kandískum dölum á hlut í 7,50 dali á hlut. Heildarvirði félagsins (e. enterprise value) er um 583 milljónir kanadískra dala (34,6 milljarðar króna). Yfirtökutilboðið gildir í tíu daga frá því að það er sent hluthöfum félagsins.

Eftir ítarlega skoðun á valmöguleikum varðandi framtíðarstefnu félagsins ákvað stjórn Atlas Cold Storage að tilboð Avion Group væri hagstætt fyrir hluthafa Atlas og mælir stjórnin einróma með því að hluthafar taki nýju tilboði Avion Group, segir í tilkynningunni.

Fjárhagslegir ráðgjafar Atlas, BMO Capital Markets og Brascan Financial Real Estate Group hafa einnig komist að niðurstöðu um að tilboð Avion Group sé hagstætt fyrir hluthafa Atlas, segir í tilkynningunni.

Þeir hluthafar Atlas sem taka tilboði Avion eiga ekki lengur rétt á mánaðarlegum arðgreiðslum.

Til að styðja við tilboðið hafa hluthafar í Atlas sem eiga um 20,6% hlut í félaginu ákveðið að styðja tilboð Avion Group og hafa skrifað undir samninga þess efnis. Hlutir sem Avion hefur samið um kaup á til viðbótar við þau 13,8% sem Avion og KingStreet Capital Partners eiga nema samtals um 34,4% hlutafjár í Atlas.

?Hækkað yfirtökutilboð Avion Group er niðurstaða umfangsmikillar skoðunar á framtíðarmöguleikum félagsins, þar sem haft var samband við 57 tilboðsgjafa og trúnaðarupplýsingar veittar. Sérstakt gagnaherbergi var opnað fyrir 22 aðilum. Hækkað yfirtökutilboð Avion Group er það hagstæðasta sem hefur borist og hefur því stjórn Atlas einróma mælt með því við hluthafa að þeir taki tilboðinu. Stjórn Atlas og stjórnendur koma til með að taka tilboðinu," segir David Williamson, forstjóri Atlas.

Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group sagði: ?Við erum ánægðir með að hafa fengið einróma stuðning frá stjórn Atlas og að hafa náð samningum við tvo af stærstu hluthöfum félagsins. Yfirtaka Atlas skiptir miklu máli fyrir framtíðarsýn Eimskips og gerum við ráð fyrir að yfirtakan hafi í för með sér kosti fyrir viðskiptavini Atlas og Avion, sem og starfsmenn, birgja og hluthafa. Mestu skiptir þó að þessi yfirtaka er í takt við vaxtastefnu félagsins og mun gera okkur kleift að vaxa enn frekar á Norður Atlantshafi."

?Við hlökkum til að vinna með teyminu frá Atlas til að tryggja sem besta sameiningu sem er öllum til góða. Með Atlas kemur Eimskip til með að ráða yfir meira en 90 hitastýrðum geymslum um allan heim. Þessi kaup koma til með að tryggja betri þjónustu til viðskiptavina beggja fyrirtækjanna og tryggja mjög samkeppnishæfa flutningsþjónustu," bætti Magnús við.

Avion Group hefur unnið með KingStreet Capital Partners við gerð og fjármögnun yfirtökunnar. King Street í gegnum KingStreet Real Estate Growth LP No 2 leggur til fasteignir til að tryggja fjármögnun viðskiptanna.

Hluthöfum Atlas verður sent nýtt tilboð eigi síðar en 18. október 2006 og gert er ráð fyrir því að það gildi til 30 október. Tilboðið er háð nokkrum skilyrðum, þar á meðal að Avion eignist að minnsta kosti 66 2/3% af hlutum í Atlas og engar stórvægilegar breytingar í tengslum við Atlas gerist sem hafi áhrif á tilboðið, segir í tilkynningunni.

Avion hefur einnig náð samkomulagi um að Atlas greiði Avion 15 milljónir kanadískra dala ef kaupin gangi ekki eftir að uppfylltum nokkrum skilyrðum.

Starfsemi Atlas Cold Storage Income Trust fer fram í gegnum fyrirtækið Atlas Cold Storage sem er annað stærsta kæligeymslufyrirtæki Norður Ameríku. Atlas Cold Storage er með 53 frysti- og kæligeymslur í Bandaríkjunum og Kanada. Starfsmenn félagsins eru 4500 talsins.