Stjórn Baugs hefur óskað eftir því að félag verði tekið til gjaldþrotaskipta. Í tilkynningu frá Baugi er haft eftir Kristínu Jóhannesdóttur, stjórnarformanni Baugs, að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, frá því í dag sé Baugi mikil vonbrigði.

Dómurinn hafnaði kröfu Baugs um áframhaldandi greiðslustöðvun.

„Við teljum, að Baugur uppfylli öll skilyrði fyrir áframhaldandi greiðslustöðvun og að áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu hafi verið raunhæfar. Þessi niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur frá í dag kom því á óvart," er haft eftir Kristínu í tilkynningu frá Baugi.

„Stjórnendur og starfsmenn Baugs hafa unnið hörðum höndum við að bjarga verðmætum í fyrirtækinu í samvinnu við kröfuhafa félagsins alveg síðan í haust þegar bankakerfið hrundi á Íslandi í kjölfar lánsfjárkreppunnar.  Við töldum okkur komin langleiðina með að ná samningum, sem allir hefðu getað vel við unað."

Nú sé hins vegar komið að leiðarlokum. „[O]g í ljósi þeirra breytinga, sem óhjákvæmilega verða, vill stjórn Baugs þakka starfsmönnum og öðrum þeim sem Baugur hefur átt samskipti við fyrir gott samstarf á undanförnum árum.“