Stjórn Bílgreinasambandsins hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þess sem stjórnin segir vera rangfærslur fyrrverandi formanns félagsins, Egils Jóhannssonar í fjölmiðlum

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Það er hvorki vilji eða stefna BGS að reka ágreiningsefni stjórnarmanna eða fyrrverandi formanns í fjölmiðlum. Engu að síður sér stjórn BGS sig tilneydda til þess, þar sem fyrrverandi formaður, Egill Jóhansson hefur haldið uppi rangfærslum um málið í fjölmiðlum.

5. maí sl. barst þáverandi formanni BGS Agli Jóhannssyni bréf frá Toyota á Íslandi vegna auglýsinga Heklu hf. þar sem Hekla hf. kynnti verðlækkanir á bílum.

Óskaði Toyota á Íslandi eftir að BGS tæki málið að sér og myndi gagnrýna þessa markaðsaðferð Heklu hf opinberlega. Daginn eftir eða 6. maí var kallað til stjórnarfundar til þess að fara yfir málið.

Fyrrverandi formaður, Egill Jóhansson setti fund en vék svo af fundi þar sem hann hafði áður tjáð sig opinberlega um markaðsherferð Heklu hf.  Áður en Egill vék af fundi lýsti hann því yfir að hann myndi virða niðurstöðu fundarins. Fundi var frestað svo menn gætu kynnt sér málið betur en framhaldið 8. maí sl.

Niðurstaða fundarins var sú að BGS myndi ekki tjá sig opinberlega um málið og ekki gagnrýna Heklu hf opinberlega fyrir þessa markaðsaðferðir. Stjórn félagsins taldi að BGS gæti ekki tekið afstöðu til þess hvort Hekla hefði brotið af sér eður ei og benti því á stofnanir eins og Neytendastofu til að taka á þessu máli sem og öðrum viðlíka.

Í útvarpsviðtali á Bylgjunni þriðjudaginn 13 maí sl. er Egill Jóhannsson kynntur sem formaður BGS þar sem þessi mál eru rædd opinberlega gegn áður ákveðinni bókun fundar stjórnar BGS þann 8. maí. Þar segir Egill m.a. að Hekla hafi brotið lög.

Í þessu útvarpsviðtali braut Egill trúnað við stjórnina með því að tjá sig opinberlega um málið sem formaður BGS. Í framhaldi af því lýstu stjórnarmenn vantrausti á hann sem formann á stjórnarfundi er haldinn var 26 maí s.l., sem varð til þess að hann sagði sig úr stjórn BGS á fundi er haldinn var 28 maí sl.

Stjórn BGS leggur áherslu á heiðarleg og fagleg vinnubrögð á öllum sviðum og telur að það sé fagmannleg vinnubrögð að virða skoðanir og samþykktir stjórnarfunda.

Varðandi yfirlýsingar Egil í fjölmiðlum um að stofnun siðanefndar innan BGS hafi verið eitt að lykilmálum hans þá tíð er hann hafi verið formaður er röng. Málið var fyrst lagt fyrir stjórn að hálfu Egils á fundi 26. maí sl. en Egil sagði af sér formennsku 28. maí sl. eins og kemur fram hér að ofan.

Var það samdóma álit stjórnar að heppilegra sé að þar til bærar stofnanir sem standa utan BGS eins og Neytendastofa og Samkeppniseftirlit fjalli um mál er upp kunna að koma er snúa að neytendamálum eða samkeppnismálum frekar en að BGS fjalli um slík mál innbyrðis.“

Undir yfirlýsingu BGS skrifar Guðmundir Ingi Skúlason, formaður.