Breska eignarhaldsfélagið Floris, sem meðal annars er í eigu Baugs og skoska auðkýfingsins Tom Hunter, hefur gert formlegt kauptilboð í bresku garðvöruverslunarkeðjuna Blooms of Bressingham, segir í tilkynningu til kauphallarinnar í London. Kauptilboðið hljóðar upp á 86,5 pens á hlut, sem samsvarar rúmlega 30 milljónum punda eða 3,9 milljörðum íslenskra króna.

Floris var stofnað til að kaupa Blooms-keðjuna, en aðrir hluthafar í félaginu eru Bank of Scotland, fasteignafélögin Prestbury og LxB Co, sem eru í eigu Baugs, og valinna stjórnenda Wyevale-garðvöruverslunarkeðjunnar. Eigendur Floris keyptu breska blómarisann Wyevale Garden Centres í fyrra fyrir 311 milljónir punda. Hunter hefur einnig fjárfest í bresku garðvöruverslunarkeðjunni Dobbies.

Stjórnendur og stjórn Blooms munu mæla með kauptilboðinu, samkvæmt tilkynningunni til London-kauphallarinnar. "Garðvörugeirinn er að fara í gegnum umbreytingarskeið og það eru augljósir kostir við að sameina krafta okkar," segir Charles Good, stjórnarformaður Blooms. Paul Davidson, framkvæmdastjóri Floris-eignarhaldsfélagsins, segir að samlegðaráhrif verði töluverð og að kauptilboðið sé sanngjarnt.

Ráðgjafi fjárfestahópsins var breska verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood, sem er í eigu Landsbanka Íslands. Hunter hefur tekið þátt í ýmsum fjárfestingum með Baugi, svo sem í Big Food Group, House of Fraser og fasteignafélaginu LxB.

Sérfræðingar búast nú við að fjárfestahópurinn muni gera kauptilboð í Dobbies-keðjuna, en fjárfestingafélag Hunters, West Coast Capital, hefur verið að kaupa í félaginu. Almennt er búist við samþjöppun á garðvörumarkaði í Bretlandi og markaðsaðlar benda á að Dobbies falli vel að rekstri Wyevale og Blooms.

Dobbies rekur 17 verslanir í Bretlandi og fyrirtækið, sem er skráð á AIM-markaðinn í London, er verðmetið á 81 milljón punda, eða rúmlega 11 milljarða króna.