Stjórn tölvuleikjaframleiðandans leggur til að fyrir aðalfund félagsins að taka skuldabréfalán upp á allt að 20 milljónir dala, jafnvirði 2,6 milljarða króna til fimm ára. Bréfin eru með breytirétti sem gerir þeim sem kaupir bréfið að breyta því í hlutabréf á tilteknum kjörum. Skuldabréfið yrði með uppgreiðslurétti.

Þetta kemur fram í dagskrá fyrir aðalfund CCP sem auglýstur er í dagblöðum í dag. Aðalfundurinn verður haldinn 12. júní næstkomandi.

Ásamt skuldabréfaútgáfunni leggur stjórn CCP til að hún fái heimild til að hækka hlutafé fyrirtækisins um allt að 625 milljónir króna að nafnvirði með útgáfu nýrra hluta. Útgáfan er tengd skuldabréfaláninu. Þá er lagt til að hluthafar hafi ekki rétt til áskriftar að þessum nýju hlutum.

Hlutafé CCP nam 9.347.938 krónum að nafnvirði um miðjan mánuðinn samkvæmt nýjum samþykktum félagsins. Eigið fé CCP samkvæmt ársreikningi árið 2010 nam rétt tæpum 50 milljónum dala, jafnvirði 6,5 milljarða króna. Skuldir námu 33,7 milljónum dala, jafnvirði 4,3 milljarða króna.