Stjórn bandaríska fjölmiðlafélagsins Dow Jones, sem meðal annars gefur út viðskiptadagblaðið Wall Street Journal, hefur greitt atkvæði með fimm milljarða Bandaríkjadala yfirtökutilboði News Corporation fjölmiðlarisans sem er í eigu Ruberts Murdoch.

Á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC) er greint frá því að Dow Jones hafi staðfest að það sé reiðubúið til að samþykkja tilboðið og mæla með því við hluthafa félagsins. Tilboðið sem News Corp. lagði fram í síðastliðnum mánuði var 65% yfir markaðsvirði Dow Jones á þeim tíma.

Málið er nú í höndum Bancroft fjöskyldunnar, sem á 24% hlut í Dow Jones en fer hins vegar með 62% atkvæða. Ef fjölskyldan, sem hefur verið eigandi að fyrirtækinu í meira en hundrað ár, ákveður að selja eignahlut sinn telja sérfræðingar að yfirtakan gæti haft miklar afleiðingar fyrir fjölmiðlalandslagið í Bandaríkjunum. Dagblaðið New York Post og Fox News sjónvarpsstöðin eru fyrir í eigu Murdoch, en auk þess ræður hann einnig yfir bresku dagblöðunum The Sun og The Times.

Það sem hefur helst staðið í vegi fyrir því að stjórn Dow Jones væri tilbúin til að fallast á tilboð Murdoch voru áhyggjur hennar af ritstjórnarlegu sjálfstæði Wall Street Journal. Af þeim sökum hafa sumir meðlimir Bancroft fjölskyldunnar biðlað til ýmissa fjárfesta um að stíga fram og gera tilboð í félagið, til að koma þannig í veg fyrir yfirtöku Murdoch. Slíkt hefur hins vegar ekki borið árangur hingað til þar sem enginn fjárfestir hefur treyst sér til að koma með tilboð í líkingu við það sem Murdoch gerði, en það nam um 60 dölum á hvern hlut.

Sátt náðist að lokum um hvernig ritstjórnarlegt sjálfstæði Wall Street Journal yrði tryggt. Komið verður á fót óháðri nefnd sem hefur það hlutverk að hvort tveggja ráða og reka starfsfólk á aðalritstjórn blaðsins og Dow Jones fréttaveitunnar.