Hluthafafundur Exista verður haldinn eftir viku en þar mun meðal annars verða lögð fram tillaga um afskráningu félagsins úr Kauphöll Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu Exista til Kauphallarinnar vegna hluthafafundarins .

Þá hefur stjórn Exista lagt fram tillögu um að auka hlutafé félagins um 50 milljarða króna að nafnverði eða jafngildi þeirrar upphæðar í evrum.

Í leiðinni falli hluthafar fá forgangsrétti sínum en stjórn félagsins geti þó heimilað einstökum hluthöfum í ákveðnum tilfellum að skrifa sig fyrir áskrift nýrra hluta, að hluta eða heild.

Þá verði engar hömlur á viðskiptum með hina nýju hluti og skulu þeir vera í sama flokki og bera sömu réttindi og aðrir hlutir í félaginu, eins og það er orðað í tillögunni.

Stjórn Exista leggur einnig fram tillögu til hluthafa um að undirgangast fjárskuldbindingar, fyrir hönd félagsins, sem breyta má í hlutafé í félaginu og heimild til hækkunar hlutafjár í samræmi við það.

Þá verði stjórninni heimilað að taka lán eða gangast undir annars konar fjárhagslega skuldbindingu fyrir rétt rúmlega 7 milljarða króna, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendum myntum, sem breyta má í hluti í félaginu, „en að því gefnu að heildarfjöldi hluta í félaginu sem mögulegt er að gefa út við nýtingu breytiréttar að fullu, skuli ekki nema meira en 50% af útgefnu hlutafé félagsins á útgáfudegi slíkra lána eða fjárhagslegra skuldbindinga,“ segir í tillögunni.

Að lokum leggur stjórn Exista fram tillögum að stjórninni verði veitt heimild til ótakmarkaðrar sölu á eignum félagsins „vegna verulegra efnahagslegra erfiðleika í þjóðfélaginu,“ eins og það er orðað í tillögunni.