Stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) auglýsir starf forstjóra laust til umsóknar í Lögbirtingarblaðinu í dag. Í auglýsingunni segir að forstjórinn sé leiðtogi stofnunarinnar og talsmaður og er leiðandi í mótun trausts fjármálakerfisins hér á landi.

Stjórn FME rak Gunnar Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar í byrjun mars og kærði hann til lögreglu vegna gruns um að hann hafi látið leka gögnum um viðskipti Guðlaugs Þ. Þórðarsonar Alþingismanns fyrir áratug til fjölmiðla. Unnur Gunnarsdóttir, yfirlögfræðingur FME, tók við forstjórastöðunni tímabundið eftir fráhvarf Gunnars.

Á að standa vörð um FME

Í auglýsingu stjórnar FME segir að nýr forstjóri eigi að hafa framúrskarandi leiðtoga-og samskiptahæfileika, háskólamenntun sem nýtist í starfi, þekkingu og starfsreynslu á fjármálamarkaði, þekking og reynslu af stjórnunarstörfum, hæfni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku, heiðarleika, staðfestu og lifandi áhugi á þróun fjármálamarkaða.

Þá beri honum að bera eldmóð, festu og áræðni til að standa vörð um skyldur stofnunarinnar, auk þess að hafa hæfileika til að hvetja starfsmenn til dáða og virkja þá í starfi.

Stjórn FME hefur jafnframt mótað skýrt, faglegt og vandað ráðningarferli en matsnefnd skipuð þremur einstaklingum mun meta hæfni og hæfi umsækjenda og skila greinargerð til stjórnar FME, sem ræður í starfið.