Stjórn Glitnis [ GLB ] sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við forstjóra bankans, Lárus Welding. Tilefni yfirlýsingarinnar eru fréttir sem birtust á fréttamiðlinum visi.is í gær og í Fréttablaðinu í dag. Þar er fjallað um óstaðfestan orðróm um að breytingar verði gerðar á yfirstjórn bankans og að nýr maður muni setjast í stól Lárusar Welding.

Yfirlýsing stjórnar Glitnis er svohljóðandi: "Vegna umfjöllunar Markaðarins í gær og morgun vill stjórn Glitnis koma eftirfarandi á framfæri. Stjórnin lýsir yfir fullum stuðningi við forstjóra félagsins, Lárus Welding, og vísar orðrómi um breytingar á stöðu hans á bug. Jafnframt lýsir stjórnin yfir ánægju sinni með þau störf sem forstjórinn og aðrir stjórnendur bankans hafa innt af hendi síðan breytingar voru gerðar á yfirstjórn hans vorið 2007."

Undir yfirlýsinguna rita fyrir hönd stjórnar Glitnis, Þorsteinn M. Jónsson formaður stjórnar og Jón Sigurðsson varaformaður.