„Það verða engir kaupréttarsamningar hjá Högum á meðan við ráðum þar ferðinni,“ segir Árni Hauksson, stjórnarformaður Haga.

Árni Hauksson
Árni Hauksson
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Í starfskjarastefnu Haga var ákvæði sem heimilaði stjórn félagsins að veita kauprétti í félaginu og útfæra kaupréttarsamninga. Stjórn félagsins felldi heimildina út á aðalfundi félagsins í dag og verða þeir lykilstjórnendur sem hug hafa á að kaupa hlutabréf Haga eftirleiðis að kaupa þau á markaði.

Árni segir að þetta sé í samræmi við það sem hann og Hallbjörn Karlson lýstu yfir um það leyti sem þeir keyptu hlutafé í Högum í aðdraganda skráningar félagsins á markað um miðjan desember í fyrra. „Við lýstum því yfir að engir kaupréttir yrðu í því,“ segir hann.

Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, gaf lykilstjórnendum Haga hlutabréf í félaginu í kringum skráninguna á markað. Kostnaður við það féll á Eignabjarg en ekki Haga. Ákvörðun stjórnar Haga í dag hefur hins vegar engin áhrif á þá hlutabréfaeign.

Enn unnið að útfærslu kaupréttarsamninga hjá Eimskipi

Fréttastofa Stöðvar tvö hefur upp á síðkastið fjallað um útfærslu á kaupréttarsamningum lykilstjórnenda hjá Eimskipi. Stefnt er að því að skrá félagið á markað í september. Í fréttunum hefur komið fram að lykilstjórnendur Eimskips geti fengið um 3,5% hlut í félaginu. Virði hlutarins getur numið á bilinu 875 milljónum króna til tæpra 1,4 milljarða miðað við að heildarvirði Eimskips hlaupi á 25 til 39 milljörðum króna. Ekki hefur verið útfært hvort og hvernig þeir greiði fyrir hlutina. Eins hefur gengi hlutanna ekki verið ákveðið.