Stjórn HB Granda leggur til að greiddur verði út arður til eigenda félagsins upp á sem nemur 12% af hlutafé, um 1,1 milljón evra, vegna góðrar afkomu félagsins á síðasta ári. Það er um 204 milljónir króna. Hagnaður félagsins nam um 13 milljónum evra, eða sem nemur 2,2 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu HB Granda til kauphallar Íslands vegna uppgjörs fyrir árið 2009.

Rekstrarafkoma félagsins er lítið eitt lakari en árið 2008 en hagnaður þess árs nam 16 milljónum evra, eða um 2,7 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Eignir félagsins, miðað við lokagengi ársins 2009, eru metnar á tæplega 52 milljarða króna og skuldir um 28 milljarðar. Eigið fé félagsins er því tæplega 24 milljarðar.

Stærstu eigendur HB Granda eru Árni Vilhjálmsson og Kristján Loftsson, með yfir helmingshlut í gegnum félög sín, og síðan Kjalar, eignarhaldsfélag Ólafs Ólafssonar. Eignarhlutur Kjalars er veðsettur Arion banka, eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu, en staða Kjalars er í besta falli óljós vegna skulda félagsins.