Hagnaður Icelandair á síðasta ári nam 44,3 milljónum dala, andvirði um 5,6 milljarða íslenskra króna. Árið 2011 nam hagnaður fyrirtækisins 36,3 milljón dala. Stjórn Icelandair leggur til að arður að fjárhæð 1,5 milljarður króna, verði greiddur til hluthafa í ár.

Rekstrartekjur Icelandair jukust úr 790,7 milljónum dala árið 2011 í 898,9 milljónir í fyrra. Rekstrarkostnaður jókst einnig, eða úr 705,7 milljónum dala árið 2011 í 789,2 milljónir í fyrra. Hagnaður fyrir skatta nam 57,4 milljónum dala, en hann var 28,5 milljónir árið 2011. Þá greiddi Icelandair 13,2 milljónir dala í skatt í fyrra.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 39% í árslok 2012, en var 36% ári áður og þá lækka nettó vaxtaberandi skuldir félagsins um 72,1 milljón dala og námu í lok árs 18,1 milljón dala.

Í tilkynningu er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra fyrirtækisins, að arðbær innri vöxtur hafi einkennt árið og að rekstur stærstu rekstrareininga samstæðunnar hafi gengið vel. Hann segir að rekstur fjórða ársfjórðungs hafi gengið vel og að EBITDA á tímabilinu hafi aukist milli ára um sjö milljónir dala og nam því um 5,9 milljónum dala. Framboð í millilandaflugi hafi verið aukið um 26% miðað við fjórða ársfjórðung síðasta árs og fjöldi farþega jókst á sama tíma um 21%.

Hann segir að í lok árs 2012 sé efnahagsreikningur fyrirtækisins sterkur og lausfjárstaðan góð. Eigið fé er 295,9 milljónir dala og handbært fé og markaðsverðbréf hafi aukist um 26,1 milljón dala frá upphafi árs og nemi 132,8 milljónum dala. Félagið sé því vel í stakk búið til áframhaldandi arðbærs innri vaxtar. Þá segir hann að horfur í rekstri félagsins séu ágætar og gerir afkomuspá ráð fyrir að EBITDA muni nema 115-120 milljónum dala á árinu 2013.