Stjórn Íbúðalánasjóðs hunsaði ráðleggingar Magnúsar Árna Skúlasonar, ráðgjafa sjóðsins um að hætta að lána til smíði nýs íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ sumarið 2008. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi Íbúðalánasjóðs er rifjað upp að Magnús Árni sagði framboð íbúðarhúsnæðis gríðarlegt miðað við fólksfjölda og ljóst að fara verði varlega næstu mánuðina í nýbyggingar svo offramboð myndist ekki.

Varaði við of miklu framboði

Magnús Árni sagði m.a.:

Í september 2007 voru 1.516 íbúðir í byggingu í Reykjanesbæ og þarf ekki að spyrja að leikslokum fyrir þá verktaka sem hefðu orðið fyrir þeirri framboðsaukningu að fá tvöþúsund íbúðir í sölu á sama búsetusvæði... Framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ er gríðarlegt m.v. fólksfjölda og ljóst [að] fara verður varlega næstu mánuði í nýbyggingar, þannig að offramboð myndist ekki á markaðinum með tilheyrandi verðfalli og neikvæðum félagslegum áhrifum vegna auðra íbúða.

Þá sagði hann æskilegt að klára þær byggingar sem nú þegar er verið að reisa og huga að sölu eða útleigu þeirra áður en lagt er í nýframkvæmdir.

„Eftir skoðun á íbúðamarkaðinum á Suðurnesjum, þá er ljóst að stíga verður varlega til jarðar í frekari uppbyggingu, ekki síst þegar horft er til þess að önnur sveitarfélög á stórhöfuðborgarsvæðinu, allt frá Árborg til Akraness, hafa einnig verið í mikilli uppbyggingu og mikið af húsnæði er óselt.“

Ekki hlustað á varnaðarorðin

Í Rannsóknarskýrslunni segir að stjórnarmenn í Íbúðalánasjóði virðist hafa gert sér allt aðrar hugmyndir um þróun mála en Magnús Árni og var lánað til húsbygginga í Reykjanesbæ af töluverðum krafti. Alls námu lán sjóðsins til nýbygginga um 760 íbúða í bænum 8,5 milljörðum króna sumarið 2008 og tæpum fimm milljörðum króna til bygginga 500-600 íbúða ári síðar. Lánveitingar námu svo tveimur milljörðum króna árið 2010.

Í Rannsóknarskýrslunni kemur m.a. fram að Íbúðalánasjóður lánaði 32 milljarða króna til íbúða í Reykjanesbæ á árunum 2005 til 2009. Um mitt sumar 2012 hafði hann eignast íbúðir sem tengdust rúmum fjórðungi lánsfjárhæðarinnar. Fleiri íbúðir áttu eftir að bætast við mánuðina á eftir og í september sama ár átti sjóðurinn ríflega 500 íbúðir í Reykjanesbæ sem metnar voru á 6,2 milljarða króna.

Helmingur þeirra var upphaflega eign leigufélaga, verktaka eða annarra fyrirtækja. Krafa sjóðsins á uppboði vegna íbúðanna var 9,6 milljarðar króna og bókfært tap sjóðsins á íbúðunum er því 3,4 milljarðar króna. Tæplega tveir þriðju íbúðanna, 323 talsins, voru auðar í september 2012 og virðist hlutfallið ekki hafa breyst mikið í apríl á þessu ári.