Japansbanki álítur að það sé "töluverð óvissa" fyrir hendi um verðlagsþróun þar í landi á næstu misserum, að því er fram kemur í fundargerð stjórnar bankans frá síðustu stýrivaxtaákvörðun í síðasta mánuði, er bankinn ákvað einróma að halda vöxtum óbreyttum í 0,5%. Í frétt Financial Times er greint frá því að þegar rýnt sé í ummæli stjórnarmanna bankans komi í ljós að skiptar skoðanir eru uppi á meðal stjórnarmanna bankans um hversu mikil undirliggjandi verðbólguþrýstingur er í hagkerfinu.

Fundargerðin, sem var gerð opinber á miðvikudaginn, sýnir að sumir stjórnarmenn eru á því að undirliggjandi verðbólguþrýstingur sé nú þegar til staðar, sem þeir segja að sé smám saman að aukast. Vísa þeir meðal annars til þess að matvörukeðjur í Japan séu farnar að hækka hjá sér verð, að hluta til vegna þess að innfluttur varningur hefur hækkað í verði, en jenið hefur sjaldan verið jafn lágt gagnvart helstu gjaldmiðlum heimsins eins og um þessar mundir. Flestir sérfræðingar í gjaldeyrismálum eiga fastlega von á því að jenið muni halda áfram að veikjast, sökum þess mikla vaxtamunar sem er á milli Japan og annarra landa. Að auki benda stjórnarmennirnir á að heimsmarkaðsverð á hráolíu - en sá liður er innifalinn í vísitölu neysluverðs - hefur farið hækkandi upp á síðkastið.

Aðrir stjórnarmenn Japansbanka telja hins vegar að áhyggjur af verðbólguþrýstingi í hagkerfinu séu ofmetnar: Mikil samkeppni á milli fyrirtækja er ríkjandi í efnahagslífinu og japanskir neytendur bregðast skjótt við öllum tilraunum fyrirtækja í þá veru að reyna hækka hjá sér verðlag. Fulltrúi fjármálaráðneytisins sem hefur stöðu áheyrnarfulltrúa á fundi stjórnarinnar sagðist ekki sjá nein merki um undirliggjandi verðbólgu í hagkerfinu. Þvert á móti mælist verðbólga án orku, matvæla, áfengis- og tóbaksliða, svokölluð kjarnaverðbólga (e. core inflation), neikvæð; verðlag hefur lækkað síðustu fjóra mánuði, enda þótt lækkunin hafi aðeins numið 0,1% í maímánuði. Stjórn Japansbanka segir að helstu orsakir þessara lækkana megi rekja til lækkandi verðs á farsímum og flugfargjalda.

Financial Times hefur það eftir sérfræðingum að fundargerðin endurspegli mismunandi viðhorf stjórnarmanna varðandi efnahagsþróunin í Japan. Þeir sem eru fylgjandi stífri peningamálastefnu vilja hækka stýrivexti um leið og tækifæri gefst til, þar sem þeir séu á þeirri skoðun að aukin hagvöxtur og sívaxandi fjárfesting í hagkerfinu muni óumflýjanlega leiða til verðlagshækkana. Aðrir stjórnarmenn bankans vilja fremur bíða þangað til að hagtölur sýni bersýnilega að verðlag sé í raun farið að hækka.