Landsbankinn [ LAIS ] mun minnka hlutafé sitt um 300 milljónir að nafnvirði muni aðalfundartillögur stjórnar ná fram að ganga. Aðalfundur bankans verður haldinn 23.apríl næstkomandi.

Ásamt lækkun hlutafjár fela tillögurnar í sér hækkun hans með útgáfu jöfnunarbréfa að sömu fjárhæð.

Verði tillögurnar samþykktar mun hlutafé þeirra sem eiga í bankanum hækka að nafnvirði og þeir jafnframt eiga hlutfallslega stærri eignarhlut af skráðu hlutafé.

Áhrif aðgerðanna eru sambærileg við ef Landsbankinn hefði greitt út arð í formi hlutafjár að nafnvirði 300 milljónir. Sé miðað við dagslokagengi Landsbankans í dag er um að ræða fjárhæð upp á 9,1 milljarð króna.

Bankinn mun nota eigin hluti til að framkvæma þessar aðgerðir. Hlutir sem Landsbankinn á í sjálfum sér koma til frádráttar eigin fjár, og því mun eiginfjárstaða bankans batna við þessar aðgerðir. Því er um að ræða færslu eignarhalds til hluthafa.

Aðgerðirnar munu þó ekki leiða til skattskyldu hluthafa líkt og ef um venjubundnar arðgreiðslur hefði verið að ræða. Þó munu hluthafar greiða fjármagnstekjuskatt af söluverði hlutabréfa þegar og ef þau verða seld.

Í aðalfundartillögum er einnig lagt til að bankaráði verði heimilt að gefa út breytanleg skuldabréf að hámarki fjárhæð 60 milljarða króna. Bæði Kaupþing og Glitnir höfðu sambærileg heimildarákvæði í aðalfundarsamþykktum sínum. Lagt er til að bankinn geti aukið hlutafé sitt um 1,5 milljarða, sem er um 14% af núverandi hlutafé sé miðað við dagslokagengi í dag.