Á hlutahafafundi Marel í dag voru tvær heimildir stjórnar til hlutafjárhækkunar samþykktar, samkvæmt tilkyningu til Kauphallarinnar.

Annars vegar heimild stjórnar félagsins til að hækka hlutaféfélagsins um allt að krónur 52.016.732 að nafnvirði, en hlutirnir verða gefnir út og afhentir hluthöfum í Scanvægt International, sem hluti af greiðslu vegna kaupa Marels á félaginu.

Hins vegar heimild stjórnar til þess að hækka hlutafé félagsins um allt að krónur 60.000.000 að nafnvirði og munu hluthafar falla frá forkaupsrétti, að hluta eða öllu leyti.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku sagði Hörður Árnason, forstjóri Marels, að fyrirtækið stefni á að vera í fararbroddi á alþjóðlegum markaði í þróun og markaðssetningu hátæknibúnaðar og þrefalda veltu félagsins á næstu þremur til fimm árum.

Þar segir hann að Marel hafi greint 130 fyrirtæki á sama markaði og úr varð listi átta fyrirtækja sem talin voru skila fyrirtækinu mestu hagnaðarauka ef að sameiningu yrði.

"Þau tvö fyrirtæki sem við höfum keypt á árinu eru af þessum lista," segir Hörður í viðtalinu.