Forstjóraskipti hjá N1 er liður í kostnaðarlækkun félagsins en í gær var tilkynnt að Eggert Benedikt Guðmundsson myndi láta af störfum sem forstjóri. Eggert Þór Kristófersson fjármálastjóri félagsins tekur við starfinu. Þetta staðfestir Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1. Margrét segir þetta hafa verið gert í mikilli sátt.

„Eggert kom til okkar þegar við vorum að ráðast í fullt af stórum verkefnum og hann með mikla reynslu. Hann ræðst í þessi verkefni og gerir það afbragsvel. Nú erum þessum verkefnum lokið. Það er búið að skrá fyrirtækið á markað, einfalda það, hagræða og sameina lagerhald. Það er hellingur sem er búið að nást að gera. Nú er félagið minna en við vorum með og einfaldari rekstur.“

Í framahaldi var því horft til yfirstjórnar og hvernig lækka mætti kostnað og var þessi breyting liður í því. „Ég vil undirstrika að þetta var gert í miilli sátt. Við höfum átt afar farsælt samstarf og höfum rætt þessa hluti opinskátt,“ segir Margrét.

Eggert Benedikt var með 55,9 milljónir í árslaun á síðasta ári sem samsvarar 4,7 milljónum á mánuði. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem var birtur í gær. Launin hækkuðu um 8% á milli ára en árið 2013 voru þau 51,7 milljónir. Forveri Eggerts, Hermann Guðmundsson, var með 33,5 milljónir árið 2011 áður en félagið fór í endurskipulagningu og á markað. Eggert Þór Kristófersson sem sinnt hefur starfi fjármálastjóra og tekur nú við stöðu forstjóra var með 33,8 milljónir á síðasta ári samkvæmt ársreikningi.