Stjórn neytendasamtakanna áréttaði á fundi sínum í gær að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu.

Að mati stjórnar Neytendasamtakanna er ljóst að aðildarumsókn nú er nauðsynleg í því uppbyggingarstarfi sem framundan er í íslensku efnahagslífi og erfitt er að sjá það fyrir sér hvernig það á að heppnast án umsóknar.

,,Ljóst er að krónan hefur dugað þjóðarbúinu illa og því er eðlilegt að skoðað verði að taka upp annan gjaldmiðil. Strax með aðild að ESB, og jafnvel umsókn einni saman, getur krónan strax komast í ákveðið „skjól“ af evrunni. Umsókn um aðild myndi jafnframt auka tiltrú á íslenskt efnahagslíf og stuðla að stöðugleika sem þörf verður á í endurreisn efnahagslífsins," segir í frétt á heimasíðu samtakanna.   Minnt er á helstu kosti sem m.a. komu fram í skýrslu sem tekin var saman fyrir Neytendasamtökin um kosti og galla aðildar að ESB:

Með evrunni fengjum við öruggari aðgang að okkar mikilvægasta viðskiptasvæði. Verulega væri dregið úr gengisáhættu þjóðarinnar.

Tollar í viðskiptum við önnur Evrópulönd falla niður. Þetta skilar sér í lægra verði. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu hins vegar í sumum tilvikum hækkað.

Netviðskipti við fyrirtæki innan ESB verða ódýrari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum. Talið er að matvælaverð geti lækkað verulega með inngöngu Íslands í ESB.

Með aðild að myntbandalagi ESB myndu vextir á íbúðarlánum lækka töluvert, en erfitt er að fullyrða hve mikil sú lækkun yrði. Ætla má að með aðild myndu viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila aukast hér á landi. Þar með yrði samkeppnin meiri og fleiri stoðum skotið undir íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Almennt myndi því samkeppnin aukast á nánast öllum sviðum um leið og vöruúrval yrði meira.

Verðbólga minnkar og fer niður á það stig sem hún er í Evrópu.

·         Verðtrygging fjárskuldbindinga myndi hverfa með upptöku evru.