Stjórn Nisa-Today, sem er verslunarkeðjusamtök heildsala og smásala í Bretlandi, hefur samþykkt endurbætt tilboð vegna samruna við Costcutter þægindavöruverslanakeðjuna sem rekur um 1.300 verslanir.

Greint hefur verið frá fyrirhuguðum samruna í Viðskiptablaðinu á undanförnum mánuðum og í blaðinu í dag kemur fram að líklegt væri að niðurstað fengist á stjórnarfundi sem halda átti í gær. Um er að ræða samrunaáætlun upp á um 200 milljónir punda eða sem svara um 27 milljörðum íslenskar króna sem Kaupþing banki sér um að fjármagna. Kaupþing hafði reyndar mikilla hagsmuna að gæta eftir að bankinn tók sér stöðu sem eignaraðili í Costcutter fyrr á þessu ári.

Samkvæmt frétt Financial Times í dag mun Kaupþing banki hefja ferli við að selja um 950 aðilum sem standa að baki Nisa-Today's þessa viðskiptahugmynd í næsta mánuði. Gert er ráð fyrir að eigendahópur Nisa-Today's fái allt að 60% í sameinaðri verslanakeðju. Fyrstu hugmyndir gerðu hins vegar ráð fyrir að þar yrði um minnihluta að ræða, en hver hluthafi um sig fengi að auki 50.000 pund í vasann.