Aðalfundur Haga, sem fram fór í morgunn, féllst á tillögu tilnefningarnefndar við kjör á stjórnarmönnum. Stjórnin er því óbreytt. Þá var einnig fallist á tillögu stjórnar Haga um að helmingur hagnaðar ársins, 1.158 milljarðar króna, yrði greiddur til hluthafa í formi arðs.

Átta voru í framboði til stjórnar en voru upphaflega níu. Helgi Bjarnason, fjárfestir, dró framboð sitt til stjórnar til baka áður en fundurinn fór fram. Stjórn er óbreytt frá hluthafafundi sem fram fór í janúar þessa árs en þá var Jón Ásgeir Jóhannesson meðal annars í framboði. Hlaut hann ekki brautargengi.

Framgöngu í stjórnarkjörinu hlutu Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Slippsins á Akureyri, Erna Gísladóttir, forstjóri og eigandi BL ehf., Davíð Harðarson, fjármálastjóri Nordic Visitor, Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, og Stefán Árni Auðólfsson, lögmaður hjá LMB Mandat. Flest atkvæði hlaut Eiríkur, rúm sjötíu prósent, en Stefán fæst, tæp 55%. Aðrir sem náðu kjöri fengu tæp 66%.

Aðrir í framboði voru lögmaðurinn Björgvin Halldór Björnsson, Guðrún Ólafsdóttir, gæðastjóri VHE ehf., og Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við HR.

Ársreikningur var lagður fram og samþykktur og þá var tillaga um þóknun til stjórnarmanna samþykkt. Fær formaður 660 þúsund á mánuði, varaformaður 495 þúsund og aðrir stjórnarmenn 330 þúsund. Tilnefningarnefnd var kjörin og fá nefndarmenn hennar 20 þúsund á klukkustund samkvæmt reikningi.