Stjórn Dagsbrúnar ræddi á fundi í dag málefni dagblaðsins DV í kjölfar hinna hörmulegu atburða á Ísafirði og sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess þar sem stjórnin segist virða þá ákvörðun ritstjóra DV að láta af störfum.

Í yfirlýsingunni segir:

"Vegna umræðu undanfarinna daga um ábyrgð eigenda og stjórnar á efni fjölmiðla á vegum dótturfélagsins 365 tekur stjórnin fram að hún starfar eftir starfsreglum þar sem m.a. er kveðið á um að stjórnarmönnum sé óheimilt að hlutast til um einstök umfjöllunarefni fjölmiðla í eigu félagsins. Aðkoma stjórnarinnar að fjölmiðlunum felst í almennri stefnumótun.

Stjórnin ítrekar að Dagsbrún stendur vörð um tjáningarfrelsi, prentfrelsi, upplýsingafrelsi og gildi lýðræðis og mannréttinda. Félagið virðir grundvallarreglur frjálsrar blaðamennsku og leggur áherslu á sjálfstæði ritstjórna, m.a. gagnvart eigendum, auglýsendum, hagsmunahópum og opinberum aðilum. Félagið þjónar almenningi í landinu og vill eiga traust hans og vera jákvætt afl til umbóta, meðal annars með því að hlúa að gagnrýninni, sjálfstæðri og óháðri umræðu, innan ramma gildandi laga."

Undir þetta skrifar fyrir hönd stjórnar Dagsbrúnar hf. Þórdís J. Sigurðardóttir
formaður.