Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fundaði í dag vegna  vegna ítrekaðra bilana í skólpdælustöð við Faxaskjól og losunar skólps í sjó í tengslum við viðgerðir af völdum þeirra. Fundurinn var haldinn að ósk borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins , Kjartans Magnússonar og Áslaugar Friðriksdóttur.

Samkvæmt bókun fundarins biðst stjórn Orkuveitunnar velvirðingar á þeirri mengun sem orðið hefur. Telur stjórnin að skoða þurfti fráveitukerfi Veitna og virkni þess í samræmi við vaxandi umhverfiskröfur, ekki síst við þær aðstæður þegar bilanir koma upp eða álag verður óeðlilega mikið.

Stjórnin lýsir einnig ánægju með nýtt verklag Veitna varðandi samskipti við heilbrigðiseftirlit og aukna upplýsingagjöf til almennings. Stjórnin telur að upplýsa hefði átt almenning jafnóðum um þá skolplosun, sem átti sér stað í tengslum við umræddar viðgerðir.

Bókun aukafundar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur vegna skólpmengunarmálsins 17. júlí 2017:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur biðst velvirðingar á þeirri mengun sem orðið hefur vegna bilunar í skólpdælustöð við Faxaskjól og losunar óhreinsaðs skólps í sjó í tengslum við viðgerðir vegna hennar. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telur að skoða þurfi fráveitukerfi Veitna og virkni þess í samræmi við vaxandi umhverfiskröfur, ekki síst við þær aðstæður þegar bilanir koma upp eða álag verður óeðlilega mikið. Stjórnin lýsir ánægju með nýtt verklag Veitna varðandi samskipti við heilbrigðiseftirlit og aukna upplýsingagjöf til almennings.  Stjórnin telur að upplýsa hefði átt almenning jafnóðum um þá skolplosun, sem átti sér stað í tengslum við umræddar viðgerðir. Stjórnin vill jafnframt koma þökkum á framfæri við starfsmenn Veitna, sem hafa unnið að viðgerðum og strandhreinsun.