Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur tók þá ákvörðun að fela lögfræðingi að ganga á eftir því að fá gögn frá Guðmundi Þóroddssyni, fyrrverandi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.

Þetta staðfestir Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar OR, í samtali við Viðskiptablaðið

Hún segir að í júníbyrjun hafi komið í ljós að Guðmundur hafi - þegar hann lét af störfum hjá Orkuveitunni og Reykjavík Energy Invest - tekið með sér fundargerðir stjórnar OR á níu ára tímabili, en þeim hafi fylgt fylgiskjöl ýmis konar sem kynnu að geyma viðkvæmar viðskiptaupplýsingar.

Hún bendir aukinheldur á að á umræddu tímabili hafi trúnaður ríkt um allar fundargerðir OR. Þeim trúnaði var hins vegar, eins og kunnugt er, aflétt fyrr á þessu ári eða þegar núverandi stjórn OR tók við.

Ásta segir að strax hafi verið óskað eftir því af hálfu Orkuveitunnar að gögnunum yrði skilað. Það hafi hins vegar ekki borið árangur. Guðmundur fékk síðan í hendurnar bréf frá lögmanni OR í gær  þar sem þess er krafist að gögnin verði afhent.

Vonast til þess að málið leysist í góðu

Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að hann hafi ekki óskað eftir því að lögfræðingur yrði fenginn í málið. Hann hafi talað við Guðmund símleiðis og vissi ekki betur en að gögnunum yrði skilað.

Þegar Ásta er spurð hver hafi óskað eftir því að lögfræðingur yrði fenginn til að kalla eftir gögnunum svarar hún. „Eðli máls samkvæmt er það gert af stjórn fyrirtækisins.“ Þegar ítrekaðar óskir um gögnin báru ekki árangur hafi verið ákveðið að „falast eftir skilum með formlegum hætti,“ segir hún.

„Að sjálfsögðu vonast ég þó til þess að gögnunum verði skilað hið fyrsta og að ekki þurfi frekari aðgerðir. Ég vonast til að þetta leysist allt í sem mestu bróðerni.“

Ekki náðist í Kjartan Magnússon, stjórnarformann OR, við vinnslu þessarar fréttar.