Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkti á fundi sínum í dag að setja allt að 49% hlut í Gagnaveitunni í söluferli. Eigendur OR, þar á meðal borgarstjórn Reykjavíkur, höfðu þegar samþykkt að selja hlutinn. Meirihluti í Gagnaveitunni verður eftir sem áður í höndum OR.

Fram kemur í tilkynningu frá OR, að ákveðið hafi verið að velja ráðgjafa við söluna að undangenginni formlegri verðkönnun, þar sem leitað verður tilboða meðal a.m.k. fimm fyrirtækja sem hafa leyfi frá Fjármálaeftirlitinu. Endanlegar tillögur um tilhögun sölunnar verða lagðar fyrir stjórn og eigendur Orkuveitu Reykjavíkur.

Gagnaveitan er að fullu í eigu Orkuveitunnar. Þjónustusvæði hennar nær frá Bifröst til Vestmannaeyja og ná tengingar fyrirtækisins til um 50 þúsund heimila.

Gagnaveitan velti um 1,2 milljörðum króna í fyrra.

Tilkynning Orkuveitunnar