Á stjórnarfundi í Orkuveitu Reykjavíkur nú í hádeginu var samþykkt að fara í viðræður um rammasamning vegna sölu á rafmagni frá Hverahlíðarvirkjun til kísilverksmiðju ThorSil í Þorlákshöfn. Afgreiðslu málsins var frestað á föstudag þar sem óheppilegt þótti að upplýsa um málið fyrir helgi þar sem tvö fyrirtæki úr hópi viðsemjenda eru skráð á markaði vestanhafs.

„Það var samþykkt umboð til stjórnarformanns og forstjóra að ræða út frá samningsramma við þessa aðila um sölu á orku frá Hverahlíð til kísiliðju sem staðsett yrði í Þorlákshöfn," segir Guðlaugur Gylfi Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, en skrifað verður undir samkomulagið klukkan fjögur í dag. „Þetta þarf að gerast á skömmum tíma ef af þessu á að verða. Það þarf klára að gera drög að samningi sem fer til eigenda og stjórnar um miðjan apríl.

Guðlaugur segir þetta samningaferli þó í sjálfu sér ekki flókið þar sem áður hafi verið gengið í gegnum slíkt ferli varðandi sambærilega framleiðslu í Þorlákshöfn.