Stjórn króatíska lyfjafyrirtækisins Pliva hefur samþykkt yfirtökuboð bandaríska samheitalyfjafyrirtækisins Barr, sem hljóðar upp á 743 kúnur á hlut (9174,92 krónur), segir í frétt Dow Jones.

Ekki kom fram í yfirlýsingu Pliva hvort þetta þýddi að baráttu Barr og íslenska samheitalyfjafyrirtækisins Actavis um kaup á fyrirtækinu væri þar með lokið, en Actavis gerði óformlegt tilboð í Pliva í júlí, sem hljóðaði upp á 735 kúnur á hlut.

?Actavis hefur ekki enn birt stjórn Pliva opinbert tilboð með skilmálum yfirtökuboðsins," sagði Marija Mandic forstjóri fjárfestingasviðs Pliva, við Dow Jones fréttastofuna.

Pliva hefur hins vegar ekki útilokað að tilboð berist frá Actavis á næstu dögum, ?segjum sem svo að Actavis leggi fram tilboð á morgun væri stjórn Pliva skylt að skoða það," sagði Mandic.

Stjórn Pliva segir að tilboð Barr sé sanngjarnt og að samkvæmt yfirtökuboðinu muni miðstöð starfsemi Barr í Evrópu verða í höndum Pliva. Höfuðstöðvar og framleiðsla Pliva munu verða áfram í Króatíu, segir í fréttinni.