Norska plastframleiðslu fyrirtækið Polimoon greindi frá því í vikunni að félagið hefur samþykkt að kaupa tvær framleiðslueiningar af breska fyrirtækinu Rexam fyrir 80 milljónir danskra króna (924 milljónir íslenskra króna), en íslenska félagið Promens hefur gert 13,3 milljarða kauptilboð í Polimoon.

Stjórn Polimoon sagði á miðvikudaginn að það væri erfitt að mæla með kauptilboði frá keppinauti Promens, fyrirtækinu Plast Holding sem er í eigu finnska fjárfestingasjóðsins CapMan, en Plast Holding bauð 27,5 norskar krónur á hlut í Polimoon. Kauptilboð Promens nemur 32,5 norskum krónum á hlut.

Einingarnar sem Polimoon hefur samþykkt að kaupa eru Rexam Thin Wall Plastic Containers í Svíþjóð og Rexam Thin Wall Plastic Containers í Danmörku. Framvegis munu einingarnar starfa undir merkjum Polimoon. Samanlagðar tekjur eininganna nema um 450 milljónum danskra króna á ári.

Promens, sem er í eigu fjárfestingafélagsins Atorku, telur að með sameiningu Promens og Polimoon verði til leiðandi plastfyrirtæki á heimsvísu og að tækifæri samstæðunnar til frekari vaxtar séu veruleg. "Við teljum að Polimoon hafi náð mjög góðum árangri og félagið hefur verið vel rekið. Með kaupum á Polimoon stækkar Promens verulega, sem er í samræmi við stefnu fyrirtækisins," segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Promens.

Polimoon framleiðir plastpakkningar og íhluti úr plasti og helstu vöruflokkar fyrirtækisins eru neytendapakkningar og pakkningar fyrir efnaiðnað. Fyrirtækið er með starfsemi 16 löndum í Evrópu og rekur 36 verksmiðjur. Starfsmenn eru um fjögur þúsund. Promens hyggst viðhalda stefnu og skipulagi Polimoon ef af kaupunum verður.

Í tilkynningu frá Promens segir að kaupin verða fjármögnuð með sambankaláni og hlutafjáraukningu, sem Landsbanki Íslands mun hafa umsjón með. Endanlegt tilboð Promens mun verða háð samþykki 90% hluthafa Polimoon og niðurstöðum úr áreiðanleikakönnun, sem og samþykki viðeigandi yfirvalda. Tilboðsverðið er 43,8% hærra en verð á hlut í lok dags þann 16. október, síðasta viðskiptadag áður en tilkynning um kauptilboð CapMan var birt.