Skipa ber sérstakt þróunarsamvinnusvið innan utanríkisráðuneytisins og skilgreina betur innan ráðuneytisins tengslin á milli pólitískrar stefnumótunar og faglegar stefnumótunar, að því er fram kemur í greinargerð Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðings, sem hún hefur skilað ráðuneytinu.

Í greinargerðinni eru gerðar tillögur til ráðherra um nýtt stjórnskipulag innan utanríkisráðuneytisins um þróunarsamvinnu.

Sigurbjörg leggur til að skrifstofa þróunarsamvinnu og íslenska friðargæslan verði fluttar af alþjóða- og öryggissviði yfir á þróunarsamvinnusvið. Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði áfram rekin sem sjálfstæð stofnun en stjórn hennar verði lögð niður í núverandi mynd, og þess í stað kjósi Alþingi fulltrúa í hlutfalli við þingstyrk í sérstakt samstarfsráð ráðherra um þróunarsamvinnu. Slíkt ráð myndi mæla ráðherra heilt um stefnumörkun í málaflokknum.

Einnig leggur Sigurbjörg til að ráðherra leggi annað hvort ár fyrir Alþingi áætlun um þróunarmál til fjögurra ára í senn, svo eitthvað sé nefnt, og að Ísland gerist aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD.

Að lögum í vor?

Tillögurnar í greinargerðinni liggja m.a. til grundvallar frumvarpi til laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, sem ráðherra mælti fyrir í febrúar sl. og unnið var að í ráðuneytinu í vetur.

Frumvarpið skapar lagaramma utan um þátttöku Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu í heild sinni. Er það nú til meðferðar á Alþingi og er gert ráð fyrir að það verði að lögum nú á vorþingi.