Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar Samtaka atvinnulífsins komu fram þungar áhyggjur af stöðu efnahagsmála.

Vandi á fjármálamörkuðum, hátt vaxtastig, fyrirsjáanlegur samdráttur í umsvifum og atvinnu, vaxandi verðbólga erlendis, veik staða krónunnar og mikil verðbólga innanlands um þessar mundir vegna gengislækkunar eru þættir sem hafa gríðarleg áhrif á afkomu fyrirtækja og kjör launafólks.

Þetta kemur fram á vef SA.

„Fyrirsjáanlegt er að aðlögun að breyttum aðstæðum verði erfið og taki tíma. Stjórnin telur afar brýnt að allir aðilar sem áhrif hafa á framvinduna á næstu mánuðum og misserum, þ.e. ríkisstjórn, stjórnarandstaða, sveitarfélög og aðilar á almennum og opinberum vinnumarkaði stilli saman strengi sína með það að markmiði að draga úr verðbólgu og koma í veg fyrir að háar verðbólguvæntingar festist í sessi,“ segir á vef SA.

Þá segir einnig að hækkun heimsmarkaðsverðs á olíu og matvælum hafi rýrt kjör þjóðarinnar og á sama tíma þarf þjóðin að horfast í augu við að hátt gengi krónunnar undanfarin ár hélt uppi hærri kaupmætti en fékk staðist til langframa.

„Við núverandi aðstæður er yfirvofandi  hætta á víxlverkandi hækkunum launa og verðlags og áframhaldandi veikingar gengis krónunnar sem allir tapa á. Þá atburðarás er hægt að koma í veg fyrir,“ segir jafnframt á vef SA.

„Stjórn Samtaka atvinnulífsins hvetur aðildarfyrirtæki samtakanna til þess að gæta hófs og aðhalds við verðlagningu í því umróti sem ríkir um þessar mundir. Samdráttur eftirspurnar er fyrirsjáanlegur og af því leiðir að ekki verður unnt að velta öllum kostnaðarhækkunum áfram út í verðlag,“ segir í ályktun nýrrar stjórnar SA.