Elisa, annað stærsta fjarskiptafyrirtæki Finnlands, tilkynnti á miðvikudag um 350 milljón evra (27,15 milljarðar króna) tilboð sitt í keppinautinn Saunalahti, sem er mun hærra en 295 milljón evra tilboð Björgólfs Thors Björgólfssonar. Novator Finnland, sem er undir forystu Björgólfs og var stærsti hluthafi Saunalahti, hefur samþykkt að selja hlut sinn í félaginu til Elisa, samkvæmt því sem kemur fram á fréttavef Reuters.

Hluti yfirtökunnar er greiddur með eigin bréfum og gangi það tilboð eftir, verður Novator stærsti hluthafinn í Elisa, með tvö sæti í stjórn fyrirtækisins.

Forsvarsmenn Elisa staðfestu að félagið myndi bjóða hvert bréf í félaginu í skiptum fyrir 5,6 bréf í Saunalahti auk peningagreiðslna. Í tilkynningu Saunalahti segir að stjórnin hafi sammælst um að mæla með að tilboðinu, sem lagt verður fram 23. ágúst, verið tekið. Með sameiningunni næði Elisa um það bil 37% hlutdeild í í finnska símamarkaðinum, miðað við tæplega helmings hlutdeild norræna fjarskiptafyrirtækisins TeliaSonera. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Sérfræðingar búast við stærri fjarskiptafyrirtæki á finnska símamarkaðinum muni hagnast til lengri tíma á samruna fyrirtækjanna. Gangi yfirtakan að óskum má búast við eðlilegri framlegð en hefur verið vegna mikils verðstríðs sem hefur verið háð á finnska símamarkaðinum. Rannsókn stjórnvalda hefur leitt í ljós að finnskir neytendur hafa notið lægstu símgjalda í Vestur - Evrópu. Bæði TeliaSonera og Elisa hafa tapað tugum þúsunda viðskiptavina síðan sumarið 2003 þegar sett voru lög sem gerðu neytendum kleift að skipta um símafélag án þess að skipta um símanúmer.

Annar ársfjórðungur var báðum fyrirtækjum erfiður, og í kjölfarið lýsti TeliaSonera því yfir að félagið þyrfti að lækka kostnað enn frekar. Bréf í Saunalahti hafa hækkað um 53% frá 17. maí þegar Novator lagði fram tilboð sitt. Þá hafa bréfin hækkað um 19% það sem af er árinu, sem hefur ýtt undir orðróm um mögulega yfirtöku.

Tilboðið sem stendur til 19. september, er þeim skilyrðum háð að tveir þriðju hluthafa taki því. Um helmingur hluthafa í fyrirtækinu hafa þegar gefið til kynna að þeir muni taka tilboðinu. Samkvæmt forsvarsmönnum Elisa mun yfirtakan spara 70 milljónir evra í rekstrarkostnað, að mestu leyti á næsta ári.