Stjórn Samtaka iðnaðarins lýsir yfir miklum áhyggjum vegna fyrirhugaðra breytinga á skipan iðnaðar- og auðlindamála í stjórnarráði Íslands. Í ályktun frá stjórn SI segir að rík ástæða sé til að endurskoða verklag og verkaskiptingu hjá hinu opinbera, en hins vegar telji samtökin afar varhugavert að deila verkefnum núverandi iðnaðarráðuneytis milli umhverfisráðuneytis annars vegar og óstofnaðs atvinnuvegaráðuneytis hins vegar.

Í ályktunar stjórnar SI segir: "Á fyrri hluta þess árs eiga málefni íslensks iðnaðar þar að auki að verða að hlutastarfi einhvers núverandi ráðherra ríkisstjórnarinnar. Sú tímabundna skipan er sögð eiga að gilda þar til fyrrgreindar kerfisbreytingar hafa átt sér stað. Stjórn SI lýsir yfir vonbrigðum með að málefni iðnaðar séu þannig afgangsstærð í pólitískum viðskiptum meðan breytingar á stjórnarráðinu eru útfærðar. Íslenskur iðnaður skapar tæpan helming útflutnings þjóðarinnar – og yfir tvo þriðju gjaldeyristekna hennar þegar ferðaþjónusta er talin með. Mikilvægt er að ríkt samráð verði haft við svo stórar greinar atvinnulífsins þegar leggja á niður ráðuneyti þeirra og haga stjórnsýslu þeirra með breyttum hætti. Um þessar mundir er Íslendingum brýn nauðsyn að tækifæri þeirra til lands og sjávar séu nýtt markvisst og sjálfbært, með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Með því að skipta verkefnum á sviði iðnaðarmála upp með fyrrgreindum og á köflum óljósum hætti telur stjórn SI að rofin verði tengsl milli atvinnulífs annars vegar og rannsókna, nýtingar, verndunar og þróunar hins vegar. Samtökin telja að Íslendingum sé þvert á móti nauðsynlegt að halda sterkum böndum milli atvinnu, þekkingar og auðlinda. Þannig eru meiri líkur en ella á að sátt skapist um skynsamlega og sjálfbæra framvindu atvinnulífs á Íslandi."

Ályktunina í heild sinni má lesa hér á heimasíðu SI.