Stjórn hátæknifyrirtækisins Skagans ehf. á Akranesi hefur samþykkt hlutafjárútboð og er ætlunin að ráðast í það í júní næstkomandi. Að sögn Gríms Garðarssonar, framkvæmdastjóra Skagans, er hlutafjárútboðið hugsað til þess að ljúka rannsóknarvinnu og markaðsstarfi vegna nýrrar vinnslulínu sem félagið hefur unnið að um nokkurt skeið.

Um er að ræða vatnsskurðarvél sem vinnur með svokallaðri CBC tækni og verður meðal annars fær um að skera beingarðinn í burtu. "Við erum sannfærðir um að þessi vél eigi eftir að breyta töluvert miklu fyrir fiskvinnsluna," sagði Grímur. Vélin verður kynnt fullþróuð á sjávarútvegssýningunni sem haldin verður í september næstkomandi í Kópavogi en hún var fyrst kynnt á sjávarútvegssýningunni í Brussel í apríl sl. Þegar vélin verður sýnd í september er gert ráð fyrir að búið verði að setja upp eina vél hjá Festi í Hafnarfirði.

Ekki er ljóst hve stórt hlutafjárútboðið verður né hvert sölugengið verður. Líklegt er að það seljist að mestu til núverandi hluthafa en að sögn Gests hafa margir sýnt áhuga á að komast inn í hluthafahópinn. Líklegt er að opnað verði fyrir það að einhverju leyti.