Stork NV samsteypan í Hollandi tilkynnti í gærmorgun að yfirstjórn og framkvæmdastjórn félagsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að það þjóni ekki hagsmunum hluthafa að framfylgja tillögu um uppskipti á félaginu sem lagaðar voru fram af Centaurus og Paulson og samþykktar af meirihluta hluthafafundar 12. október.

Hlutabréf í Stork lækkuðu heldur í verði í kauphöll Euronext í kjölfar þessara tíðinda. Samkvæmt tillögunni átti stjórn Stork að einbeita sér að rekstri Stork Aerospace sem er ein af fjórum meginstoðum fyrirtækisins. Hinar þrjár þ.e. Stork Prints, Stork Food Systems og Stork Technical Service verði þá seldar. Beðið var eftir þessari yfirlýsingu en hún er ekki talin hafa nein áhrif á möguleg kaup Marels á Stork Food Systems. Þvert á móti er talið að nú fari hjólin í því máli að snúast.

Í tilkynningu frá Stork segir að það sé ekki trúverðugur valkostur gagnvart stefnu Stork og þjóni heldur ekki hagsmunum félagsins, hluthafa og veðhafa að fylgja eftir samþykktinni frá 12. október. Því geti Stork ekki samþykkt þessa tillögu.

Þessi afstaða er í samræmi við yfirlýsingar Sjoert Vollenbregt, forstjóra Stork, í kjölfar hluthafafundarins í haust. Þá lýsti hann því yfir að stjórn félagsins væri ekki bundin af samþykkt fundarins þrátt fyrir að 86,5% fundarmanna samþykktu tillögu fjárfestingasjóðanna Centaurus Capital Ltd. í Bretlandi og Paulson & Co. Inc.í Bandaríkjunum um uppbrot á félaginu. Samtals eiga þessi félög um 33% hlut í Stork samsteypunni.

Er afstaða forstjórans byggð á því að ekki hafi verið um samþykkt hreins meirihluta heildaratkvæðamagns í félaginu að ræða. Forstjórinn fékk þó aðeins stuðning 13,5% hluthafa á fundinum um tillögu um að halda starfseminni óbreyttri.

Fulltrúar Centaurus Capital Ltd. í Bretlandi og Paulson & Co. hafa áður sagt í hollenskum fjölmiðlum að sú afstaða stjórnar að taka ekki mark á samþykkt hluthafafundarins sé brot á reglum um stjórn félagsins. Hafa þessi félög gefið í skyn að þau séu tilbúin til að fara með málið fyrir dómstóla í því augnamiði að fá stjórninni vísað frá völdum.


Talið hefur verið líklegt að Marel legði fram tilboð í Stork Food Systems, en Marel, Eyrir og Landsbankinn eiga þegar um 8% hlut í Stork í gegnum eignarhaldsfélagið FLM. Van Lanschot bankinn hefur metið verðmæti Stork Food Systems um 250 milljónir evra, eða um 21,8 milljarða íslenskra króna miðað við gengi evru í gær.

Hörður Arnarson, forstjóri Marels, segir þessa yfirlýsingu samsteypunnar í gær engu breyta í raun um samskipti Marels og Stork Food Systems og útilokaði heldur ekkert. Sagði hann að Marel hefði haldið sig til hlés í þessum átökum hluthafa og stjórnar Stork. Hörður hefur áður lýst því yfir að vegna stöðu sinnar gæti hann ekkert tjáð sig um áform um hugsanleg kaup Marels á Stork Food Systems.

Ljóst er þó að yfirlýsing stjórnar Stork breytir engu um þau meintu áform, en hins vegar biðu menn eftir að stjórn Stork tæki af skarið varðandi afstöðu til uppstokkunar á félaginu. Þar sem yfirlýsing samsteypunnar liggur nú fyrir er talið líklegt að þreifingar hefjist nú af alvöru um möguleg kaup Marels á Stork Food Systems.