„Ráðningarsamningur hans gerir ráð fyrir því að hann hafi afnot af bíl sem sé í eigu fyrirtækisins,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætós, í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að stjórn Strætós bs. hafi ekki verið upplýst um kaup á Mercedes Benz bifreið til handa Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. DV hefur fullyrt að verðmæti bílsins sé um 10 milljónir króna.

Bryndís segir að ekki sé tilgreint í ráðningarsamningi um gerð bifreiðar til handa framkvæmdastjóranum. Hún hafi ekki haft aðkomu að þessum nýju kaupum og hún þekki ekki til þeirra. Þá segir Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarmaður í Strætó, að hún hafi ekki fengið aðrar upplýsingar um málið en þær sem hafi fram komið í fjölmiðlum.