Stjórnarmenn VÍS hafa tekið ákvörðun um að afsala sér hækkun á stjórnarlaunum sem var samþykkt samhljóða af hluthöfum félagsins á aðalfundi þann 12. mars sl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Eftir þessa ákvörðun allra stjórnarmanna verða stjórnarlaunin 200 þúsund krónur á mánuði til stjórnarmanna og 400 þúsund á mánuði til formanns stjórnar.

Fram kemur í tilkynningunni að á aðalfundinum hafi fyrirkomulagi stjórnarlaunagreiðslna verið breytt þannig að hætt var að greiða fyrir hvern aukafund til viðbótar fastri mánaðarlegri þóknun samhliða því að fjárhæð fastrar þóknunar var hækkuð. Var breytingunni ætlað að auka gagnsæi um fyrirkomulag stjórnarlaunanna.

„Afsal stjórnarmanna á hækkun launanna sem ákveðin var á aðalfundinum mun því leiða til umtalsverðrar lækkunar stjórnarlauna frá fyrra starfsári þar sem gamla fyrirkomulaginu um greiðslur fyrir setna aukafundi hefur verið hætt.

Það er von stjórnar VÍS að afsal hækkunar stjórnarlauna verði þáttur í að stuðla að sátt á vinnumarkaði,“ segir í tilkynningunni.