Stjórn VR, ásamt Jóni Þór Ólafssyni alþingismanni, hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu vegna ákvörðunar kjararáðs um gríðarlega hækkun á launum alþingismanna og ráðherra á síðasta ári. „VR telur nóg komið af aðgerðarleysi stjórnvalda og hefur því ákveðið að láta reyna á málið fyrir dómstólum. Hækkun alþingismanna og ráðherra, sem jafngildir 36-44% hækkunar launa, er úr öllum takti við almennar hækkanir á vinnumarkaði,“ segir í frétt á vef VR.

Þá segir ennfremur að þess sé krafist að ákvörðunin, sem að sögn VR, stefnir stöðugleika á vinnumarkaði í bráða hættu, og hafi þannig bein áhrif á hagsmuni félagsmanna VR, verði tafarlaust ógilt með dómi.

„Þegar fréttir bárust af ákvörðun kjararáðs var hún strax fordæmd um allt þjóðfélagið, jafnvel þannig að sjálfur forseti Íslands neitaði að taka við hækkuninni. Þjóðin vænti þess að stjórnvöld myndu strax láta afturkalla ákvörðunina með öllum tiltækum ráðum og lagasetningu ef á þyrfti að halda.“

VR telur að kjararáð hafi ekki farið að lögum við ákvörðun sína enda standi það skýrum stöfum í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð að ráðið skuli við ákvarðanatöku „ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði“. „Í ákvörðun kjararáðs er hvergi minnst á hver þróun kjaramála á vinnumarkaði hafi verið þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um það. Rökstuðningur kjararáðs getur því ekki talist annað en geðþóttaákvörðun um laun æðstu handhafa löggjafar- og framkvæmdavalds á Íslandi,“ segir í fréttinni.

Jafnframt að rökstuðningur kjararáðs hafi verið frábrugðinn því  því sem almennt tíðkast þar sem vísað var til að eðlilegt þingfararkaup sé það sama og laun héraðsdómara. „Þessi rökleiðsla er marklaus með öllu, ekki aðeins er hún á skjön við sjálf lögin um kjararáð, heldur verður að teljast ólöglegt að miða við dómaralaun vegna ákvæða um sérstöðu dómara, sem er langt frá því að teljast sambærileg við stöðu alþingismanna.“