Stjórn Woolworhts er enn opin fyrir samningaviðræðum vegna sölu á smásöluhluta félagsins.

Hópur fjárfesta, undir stjórn Malcolms Walker, stofnandi Iceland-keðjunnar, hafði áður lagt inn tilboð upp á 50 milljónir punda (um 7,7 milljarða íslenskra króna) sem var hafnað síðasta sunnudag.

Þetta kom fram í fyrradag á vef Financial Times, sem hefur það eftir stjórnarformanni Woolworths, Richard North.

Íslenska fyrirtækið Baugur er á meðal þeirra sem koma að tilboðinu. Fyrir á Baugur 10% í Woolworths og einnig hlut í Iceland-keðjunni. Smásöluhluti Woolworths hefur skilað slakri afkomu undanfarið.

Financial Times hefur það eftir North að hann sé „ekki óviljugur til viðræðna“ við Malcolm Walker. Hann segir að til séu „lausnir“ ef hópurinn, undir stjórn Walkers, sé tilbúinn að „gera eitthvað skynsamlegra“.

Hann segir að Woolworths-verslanakeðjan sé í „góðum og traustum smásölurekstri“ og að nýr framkvæmdastjóri félagsins, Steve Johnson, sem hefur störf í næsta mánuði, geti tekið þau „róttæku skref“ sem nauðsyleg séu. Fyrra tilboði hópsins var hafnað m.a. á þeim forsendum að það endurspeglaði ekki verðmæti undirliggjandi reksturs og eigna smásöluhlutans.

Einnig þykir líklegt að spilað hafi inn í það skilyrði verðandi kaupanda að skuldir og lífeyrisskuldbindingar Woolworths myndu ekki fylgja með.